Notkun fylkja
Fylki eru notuð mun meira í daglegu lífi en við gerum okkur grein fyrir.
Þegar kemur að hagnýtingu eða notkun fylkja og fylkjareiknings er af mörgu að taka og er hér stiklað á stóru og alls ekki farið í alla þætti en vonandi nógu marga til að átta sig á hve víðtæk notkun fylkja er.
Stærðfræði. Uppruni fylkja má rekja til lausnar línulegra jöfnuhneppa sem er hluti línulegrar algebru. Stærðfræðileg notkun fylkja er þvert á ýmsar greinar vísinda.
Forritun. Tölvur vinna handverkið í notkun fylkja í dag, en þá þarf kunnáttu til að forrita eða rita kóða þvert á önnur svið.
Eitt af mikilvægum verkefnum forritara er dulkóðun og afkóðun ýmissa skilaboða eða þráðlausra sendinga, t.d. sjónvarpsrása en þar eru fylki ómissandi tól. Dulkóðun er notuð til að rugla gögnum í öryggisskyni og til að umrita og afkóða þessi gögn þurfum við fylki. Fyrr á dögum voru myndbandsmerki ekki dulkóðuð. Allir sem voru með gervihnattadisk gátu horft á myndefnið, sem leiddi til taps fyrir eigendur þess, því byrjuðu þeir að dulkóða myndbandsmerkin þannig að aðeins þeir sem voru með afruglara gátu afkóðað merkin. Þetta ferli notast við fylki (Vedantu).
Annað dæmi um forritun er „stafræn rigning“ sem all margir hafa heillast af í Matrix kvikmyndunum, en fylki er matrix á ensku, matrices í fleirtölu. Þessa forritun má flokka undir tölvugrafík. Á YouTube má finna allmörg myndbönd þar sem fólk sýnir slíka forritum (fyrir áhugasama má t.d. leita að „Matrix digital rain“ eða „Matrix raining code“, t.d. er þetta myndband þar sem Emily Xie forritar mjög skýrt þó langt sé, 43:23 mín).
Eðlisfræði. Í eðlisfræði og tengdum greinum, t.d. ýmsum greinum verkfræði eru fylki notuð til að rannsaka og leysa vandamál í rafrásum, skammtafræði og sjónfræði. Verkfræðingar nota m.a. fylki til að gera líkön og til að leysa flókin viðfangsefni innan aflfræði. Í rafeindakerfi flugvéla, geimfara og í efnaverkfræði sem krefjast nákvæmra útreikninga og mælikvarða er notast við fylki. Læknisfræðileg myndgreining, skannar og segulómun nota einnig fylki (UKEssays).
Jarðfræði. Í jarðfræði eru fylki notuð til að gera jarðskjálftamælingar, plotta gröf, tölfræðivinnslu, vísindarannsóknir og spár (UKEssays).
Hagfræði og viðskipti. Í rekstrarhagfræði eru mjög stór fylki notuð í bestun, t.d. við að nýta á sem bestan hátt vinnuafl eða fjármagn við framleiðslu vöru eða þjónustu og til að stjórna stórum aðfangakeðjum. Í þjóðhagfræði eru fylki notuð t.d. í þjóðhagsútreikningum ýmiss konar og til rannsóknarvinnu.
Önnur vísindi. Fylki eru notuð til að lýsa hreyfingu eða breytingu úr einni stöðu í aðra, til dæmis í spám um mannfjölda og stærð fiskistofna, umferð flugvéla, skipa, gervihnatta og stjarna svo eitt og annað sé nefnt.
Tölvugrafík. Áður fyrr var arkitektúr, teiknimyndir og sjálfvirkni unnin með handteikningum en nú á dögum eru þær gerðar með því að nota tölvugrafík. Fylki eru til dæmis notuð til að varpa þrívíddarmyndum á tvívíða fleti. Í grafík er stafræn mynd meðhöndluð sem fylki. Raðir og dálkar fylkisins samsvara línum og dálkum, pixlum, og tölulegar færslur samsvara litagildum pixla. Að nota fylki til að vinna með punkt er algeng stærðfræðileg nálgun í tölvuleikjagrafík. Fylkjaaðgerðir eins og stækkun/minnkun, hliðrun, snúningur eru meðal annars notuð í tölvugrafík (Vedantu).
Hægt er með hjálp fylkja að fá fram skuggavarp þegar þrívíðum hlutum er varpað á tvívíðan flöt. Í tölvuleik myndi til dæmis speglun um lárétta línu geta endurspeglað spegilmynd af morðingja sem speglast á hvolfi í blóðtjörn. Ef um bogadregna fleti er að ræða, eins og glansandi málmskjöld, þarf aðeins flóknara fylki til að teygja eða minnka spegilmyndina (UKEssays).
Fylki eru einnig notuð til að gera mynd óskýrari (e. blur), eða jafnvel skýrari.
Vélfræði og sjálfvirkni. Í vélfræði og sjálvirkni eru fylki grunnþættir í hreyfingu vélmenna. Hreyfing vélmenna er byggð á útreikningum með fylkjum og þeir eru mjög nákvæmir (UKEssays).
Gagnagrunnar. Fylki eru notuð til að geyma raungögn eins og til dæmis íbúafjölda eða ungbarnadauða og einnig til að rekja notendaupplýsingar, framkvæma leitarfyrirspurnir og stjórna gagnagrunnum. Fylki eru líka notuð við samþjöppun rafrænna upplýsinga, til dæmis við geymslu líffræðilegra tölfræðiupplýsinga (UKEssays).
Heimildir:
UKEssays. 22.júl.2021. Application of Matrices in Real-Life, sótt 27.apr.2022 á https://www.ukessays.com/essays/mathematics/application-of-matrices-in-real-life-problems.php
Vedantu. e.d. Introduction to Matrices, sótt 27.apr.2022 á https://www.vedantu.com/maths/application-of-matrices